Ég í hnotskurn

Ég heiti Ólína Kristín Margeirsdóttir og er þriggja barna móðir. Ég hef búið í Mosfellsbæ í 24 ár en er fædd og uppalin í Grindavík. Ég er gift Haraldi Val Haraldssyni vélfræðingi og eigum við saman þrjú börn þau Margeir Alex, Jón Árna og Elísabetu Tinnu.


Áhugamál mín hafa alltaf verið tengd ljósmyndun og byrjaði sá áhugi sjálfsagt með því að ég fékk að taka myndavélina hennar mömmu með í Vindáshlíð þegar ég var níu ára. Ég var alltaf í ljósmyndaklúbbi í grunnskóla og fór meðalannars í starfskynningu á ljósmyndastofu í 9. bekk. Ég var mikið að fikta við ljósmyndun áður en ég loks byrjaði í ljósmyndanámi árið 2005.

Ég lauk námi í grafískri miðlun haustið 2006 og vorið 2007 lauk ég svo ljósmyndanámi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Ég byrjaði námssamning á ljósmyndastofunni Ásmynd en flutti mig svo yfir á Barna og fjölskylduljósmyndir í enda júní 2008. Ég lauk svo sveinsprófi í október 2008.

Árið 2009 opnað ég mína eigin ljósmyndastofu í bílskúrnum heima hjá mér og vorum við lengi vel með stúdíóið okkar þar. Nýlega fluttum við okkur yfir í Þverholt 5 en þar erum við með rúmgott, hlýlegt og þægilegt stúdíó.